Nokkrir lífeyrissjóðir deila við slitastjórn Glitnis um stöðu krafna lífeyrissjóðanna á hendur búinu á grundvelli víkjandi skuldabréfs sem bankinn gaf út í mars 2008. Telja forsvarsmenn lífeyrissjóðanna að bankinn hafi beitt blekkingum við söluna og veitt rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu hans. Deilan er nú rekin fyrir dómstólum sem gjaldþrotamál.

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir málið ekki hafa verið kært af hálfu sjóðanna til lögreglu. Hann bendir hins vegar á að slitastjórnin, FME og aðrir sem betri aðgang hafa haft að upplýsingum hafi upplýst embætti sérstaks saksóknara um verðbréfaútgáfur Glitnis eftir því sem við á. Þá sé ekki loku fyrir það skotið, að sögn Hauks, að upplýsingar sem komi fram í áðurnefndu dómsmáli geti leitt til nánari skoðunar á málinu af þeirra hálfu.