Innstæður í íslenskum bönkum sem njóta ríkisábyrgðar samkvæmt yfirlýsingu íslensku ríkisstjórnarinnar eru ekki flokkaðar á meðal ábyrgða ríkisins hjá Lánamálum ríkisins. Samkvæmt Seðlabankanum má rekja þetta til þess að Alþingi hefur ekki samþykkt ríkisábyrgðina með lögum og því er hún ekki gild gagnvart ríkissjóði. Í ritinu Markaðsupplýsingar, sem Lánamál ríkisins gefa út, kemur fram að heildarríkisábyrgðir hafi numið 1.236 milljörðum króna í lok apríl 2014. Innstæður í íslenskum bönkum nema aftur á móti talsvert hærri fjárhæð eða 1.625 milljörðum króna.

Innstæður viðskiptavina hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum nema samtals um 1.625 milljörðum króna samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands. Innstæðurnar sem ábyrgðaryfirlýsing fyrri ríkisstjórna hvílir enn á nema því talsvert hærri fjárhæð en allar aðrar fjárskuldbindingar sem ríkið ábyrgist.

Miðað við verga landsframleiðslu Íslands fyrir síðasta ár þá nema ríkisábyrgðir utan fjármálafyrirtækja um 69% af vergri landsframleiðslu, ríkisábyrgðir vegna bankainnstæðna um 91% og samtals nema ríkisábyrgðir að meðtöldum bankainnstæðum því um 160% af vergri landsframleiðslu

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út 3. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf- útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.