Coca-Cola fyrirtækið hefur ákveðið að hætta að vera með talhólfsþjónustu. Ákvörðunin var tekin til þess að “einfalda vinnuna okkar og auka framleiðni,” samkvæmt minnisblaði Coca-Cola sem Bloomberg-fréttastofan hefur undir höndum.

Coca-Cola telur smáskilaboð og tölvupósta árangursríkari samskiptamáta en talhólf, sem krefst þess að starfsfólk hlusti á upptökur, skrifi niður mikilvægar upplýsingar og eyði svo upptökunum. Með því að hætta að hafa talhólf munu 100 þúsund bandaríkjadalir sparast.

Í frétt Bloomberg kemur fram að margir starfsmenn hafi verið ósáttir við þessar breytingar. Þar er einnig haft eftir Michael Schrage, rannsakanda hjá MIT, að fólk undir 35 ára noti talhólf nánast aldrei.