Fyrir þremur árum síðan opnuðu Hemmi (Hermann Valgarðsson) og Valdi (Valdimar Geir Halldórsson) Nýlenduvöruverzlun. Í dag reka þeir lítið ferðaþjónustuveldi í miðborg Reykjavíkur og eru ekki hættir að byggja það upp. Þeir segjast hafa nýtt þau tækifæri sem hrunið bauð upp á til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og telja fullt af tækifærum vera fyrir góðar hugmyndir að vaxa á Íslandi í framtíðinni.

„Það er í sjálfu sér ótrúlega auðvelt að gera eitthvað hérna á Íslandi, ef mönnum langar til þess,“ segir Hemmi. „Ef þú ert  með góða hugmynd þá er lítið mál að stofna fyrirtæki og tala við fólk. Ef hugmyndin er hins vegar þess eðlis að þig vantar fjármagn en þekkir engan sem er tilbúinn að láta það af hendi þá ertu í vandræðum. Svona miðstýrt frumkvöðlaumhverfi líkt og er hérlendis hentar ekki öllum.“ Félagi hans, Valdi, tekur heilshugar undir þessa afstöðu.

Það er þó ljóst að sú leið sem þeir félagar hafa valið að fara er að virka. Í dag eiga þeir hlut í Nýlenduvöruverzlun Hemma&Valda, Reykjavík og Akureyri Backpackers, CheapJeep, Tíu dropum og tölvuversluninni Macland. Á ársgrundvelli eru stöðugildi innan Hemma&Valda-samsteypunnar um 40 talsins.

Byrjaði á gámi af hjólum

Samstarf þeirra átti sér þó allt annað en hefðbundin aðdraganda. Það byrjaði á því, að sögn Hemma, að Valdi pantaði inn gám af hjólum frá Kína. Valdi reynir að útskýra hvað bjó að baki hjólakaupunum. „Ég og konan vorum í heimsreisu. Við vorum eitthvað að flakka um heiminn og ég var með litla bók með mér sem ég skrifaði allt í sem ég ætlaði mér að gera. Ég átti mér þann draum að opna kaffihús og vera í ferðaþjónustu. Þegar ég kom heim þá pantaði ég hjól sem ég ætlaði að leigja út á Laugaveginum. Það var pælingin.“

Konur saman í saumaklúbbi

Hemmi: „Við Valdi tengjumst í gegnum konurnar okkar, sem eru saman í saumaklúbbi. Hann kom með þessa hugmynd til mín og ég hugsaði hvað væri eiginlega að þessum gæja. Hann var með gám af hjólum og vissi ekkert hvernig hann ætlaði að selja þau. Svo fannst mér þetta smátt og smátt verða svolítið sniðugt og Valdi náði að selja mér þessa hugmynd.“

Hjólaleigan þróaðist þó fljótlega frá því sem hún átti upphaflega að vera yfir í nýlenduvöruverzlun, sem heitir eftir þeim félögum, og selur bjór.

Valdi: „Fyrst var pælingin sú að fólk gæti keyrt niður í bæ eftir vinnu, fengið sér bjór og hjólað síðan heim. Við seldum síðan hjólin. Alls 260 hjól á tveimur árum. En við græddum þannig séð ekkert á þessu. Áttum fyrir kostnaði.“

Ítarlegt viðtal er við Hemma og Valda í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð.