Leiðtogar 20 helstu iðnríkja heims munu hittast í Washington um helgina til þess að ræða fjármálakreppu heimsins. Ekki ríkir sérstök bjartsýni um afgerandi niðurstöður fundarins, sem kannski má best greina af því að Barack Obama, sem senn tekur við forsetaembætti í Bandaríkjunum, hefur ákveðið að halda sig fjarri fjölmiðlaglaumnum.

Fyrir fram greina menn nokkurn afstöðumun leiðtoganna. Talið er að sumir leiðtoganna muni tala fyrir mjög hertu regluverki á alþjóðavísu, en George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur eindregið varað við því að gripið verði til of íþyngjandi ráðstafana.

„Þessi kreppa er ekki brestur hins frjálsa markaðskerfis,“ sagði Bush í ræðu í New York-borg í gær þar sem hann sló tóninn fyrir helgina.

Hann sagði helstu hættu hagsældar ekki stafa af „of litlum ríkisafskiptum, heldur of miklum ríkisafskiptum á markaði.“

Óvíst er þó að þessi orð forsetans fráfarandi veki hrifningu allra kollega hans, sem sumir telja að það hafi einmitt verið of mikið frjálsræði á bandarískum fjármálamörkuðum, sem hafi valdið alþjóðahagkerfinu þeim vanda, sem nú er við að etja. Bent er á að kveikjan að henni hafi falist í undirmálslánunum svokölluðu á fasteignamarkaði vestanhafs.

Á fundi fjármálaráðherra G20 í Saõ Paulo um liðna helgi sagði Luiz Inácio Lula da Silva Brasilíuforseti að hagkerfi heimsins hefði „hrunið eins og spilaborg“ vegna „kreddukenndrar trúfestu á afskiptaleysi á mörkuðum“. Brasilía er í forsæti G20 hópsins í ár, en hann endurspeglar hvernig fleiri eru komnir að borðinu hvað varðar alþjóðahagkerfið, en áður véluðu G7-ríkin helst um þau. Meðal annarra G20-ríkja eru Kína, Indland, Suður-Afríka og Suður-Kórea.

Nú þegar helstu ríki G7 fá að kenna á efnahagssamdrætti líta margir til þessara nýju markaðsrisa til þess að knýja vöxtinn, þó enginn vænti þess að það gerist þegar í stað.

Í hugum sumra þátttakenda er brýnna að ræða með hvaða hætti megi koma í veg fyrir fjármálakreppur sem þessar í framtíðinni, en hún hefur þegar haft skelfilegar afleiðingar fyrir heimili, fyrirtæki og ríkisfjármál víða um heim. Franskur embættismaður sagði að í lokayfirlýsingu fundarins yrði að líkindum „nákvæm tímaáætlun“ yfir aðgerðir og tiltók að hún yrði engin skemmtilesning.