Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, telur raforkuverð, að flutningsgjaldi meðtöldu, hér innanlands ekki lengur samkeppnishæft við verð erlendis. Því er ljóst að fleiri stórnetendur á Íslandi lendi í rekstrarvanda á næstunni. Frá þessu greinir Bjarni í umsögn um kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2020-2029. Fréttablaðið greindi frá.

Sjá einnig: Orkuveitan tapaði 2,6 milljörðum

Þar segir hann að „ekki sé ólíklegt að álveri Rio Tinto verði lokað á næstunni.“ Ef svo færi myndi um 22% af því rafmagni sem nú er unnið á landinu verða óselt. Einnig kemur fram að vegna þess að kísilverið við Helguvík og á Bakka hafi lokað hafi raforkukaup á Íslandi dregist saman um 7,5% af árlegri vinnslugetu.

Sjá einnig: Landsnet tryggir afkomu Rarik

Bendir hann á uppgang áliðnaðarins í Kína. Svo gæti farið að áliðnaður á Vesturlöndum gæti lagst af ef staða á álmarkaði lagist ekki á næstu árum, slíkt gæti átt við um álver Alcoa á Reyðarfirði og Norðurál við Grundartanga.

Ástæða umsagnar Bjarna er fyrirætlun Landsnets um að fjárfesta um 90 milljörðum króna í flutningskerfi raforku á Íslandi á næstu tíu árum. Bjarni segir að ef slíkt yrði gert myndi flutningskostnaður viðskiptavina hækka en hann telur að „sumir stórnotendur rafmagns á Íslandi eru þegar við sársaukamörk.“