Hervé Carré, aðstoðarframkvæmdarstjóri stjórnarskrifstofu efnahagsmála ESB, mælir eindregið gegn því að Ísland taki upp evruna án þess að gerast samhliða aðili að Evrópusambandinu. Þetta kom fram á á fundi sem haldin var í morgun á vegum Fastanefndar Evrópusambandsins og Útflutningsráðs.

Carré sagði að þrátt fyrir að Ísland gæti lagalega séð tekið upp evruna einhliða án þess að gerast aðilar að Evrópusambandinu, líkt og smáríkið Andorra hefur til dæmis gert þá væri það ekki skynsamlegt.

Í þessu sambandi nefndi Carré að sem einhliða aðilar að evrunni þá myndi Ísland ekki taka formlega þátt í gjaldeyrissamstarfinu og þar af leiðandi missa af því tækifæri að hafa áhrif á ákvörðunartöku innan myntbandalagsins.

Carré sagðist telja að aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptaka evrunar í kjölfarið myndi hafa margvísleg jákvæð áhrif fyrir bæði utanríkisviðskipti og frekari alþjóðavæðingu fjármálageirans hér á landi.

Carré sagði ennfremur að misræmi hagsveiflu íslenska hagkerfisins við hagsveiflu hinna evruríkjanna væri ekki vandamál. Í þessu sambandi benti Carré á að ríki Bandaríkjanna hefðu ekki upplifað vandamál þessu tengt þrátt fyrir að hagsveiflur væru þar mjög mismunandi milli einstakra ríkja.

Carré sagðist telja að Íslendingar einblíndu um of á efnahagslegar hliðar aðildar að Evrópusambandinu og telur að við eigum að horfa í auknum mæli á ESB sem stjórnmálalegt samstarf vinaþjóða sem hafa sameiginlegt gildismat.

Hervé Carré sem mun taka við embætti yfirmanns evrópsku Hagstofunnar von bráðar er einn af hugmyndasmiðum evrunnar og hefur starfað hjá ESB síðan 1973. Carré hefur áratugareynslu af málefnum tengdum hagkerfi ESB evrusvæðisins, og evrunni og innleiðingu hennar.