Stjórn Englandsbanka kemur saman í vikunni til að ákveða vaxtastig í Bretlandi. Bloomberg fréttastofan hafði samband við 49 hagfræðinga og spá þeir allir óbreyttu vaxtastigi á fimmtudaginn 7.september, segir Greiningardeild Glitnis.

Bankinn hækkaði vexti þvert á spár í byrjun ágúst og eru stýrivextir í Bretlandi nú 4,75%.

Vextir í framvirkum samningum og spár sérfræðinga benda þó til að Englandsbanki muni hækka vexti fyrir áramót og að þeir verði um 5% í árslok, segir greiningardeildin.

Mikill hagvöxtur mældist í landinu á öðrum ársfjórðungi og hefur hann ekki mælst eins mikill í tvö ár. Í framhaldi af því endurskoðaði Englandsbanki væntingar sínar um hagvöxt og verðbólgu á árinu.

Endurskoðuð spá Englandsbanka fyrir árið 2006 hljóðar upp á 3% verðbólgu og að hagvöxtur verði 2,8%, segir greiningardeildin.