*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 13. febrúar 2020 14:51

Ekki upplýstur um símtöl og bréf

Benedikt Bogason telur að jafnræðis hafi ekki verið gætt fyrir Landsrétti í máli hans gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni.

Jóhann Óli Eiðsson
Benedikt Bogason.

Hæstiréttur hefur fallist á áfrýjunarleyfisbeiðni hæstaréttardómarans Benedikts Bogasonar í máli hans gegn fyrrverandi hæstaréttardómaranum og lögmanninum Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Benedikt taldi meðal annars að jafnræði aðila hefði ekki verið tryggt fyrir dómi sökum símtala og bréfaskipta Jóns Steinars við Landsrétt.

Aðdragandi málsins ætti að vera flestum kunnur en hann má rekja til útgáfu ritsins „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ en höfundur þess er fyrrnefndur Jón Steinar. Í ritinu stígur dómarinn fyrrverandi fram með hvassa gagnrýni á Hæstarétt Íslands og störf hans.

Benedikt fór fram á það að fimm ummæli í bókinni yrðu dæmd dauð og ómerk og að honum yrðu dæmdar miskabætur úr hendi fyrrverandi starfsbróður síns. Héraðsdómur sýknaði Jón Steinar og hið sama gerði Landsréttur með þeim rökum að umræður og gagnrýni á störf dómstóla ættu ríkt erindi við almenning. Að mati dómsins hefði Jón Steinar í ritinu fellt gildisdóma, og með því lýst eigin skoðunum og ályktunum, þótt þeir hefðu verið klæddir í búning staðhæfingar um staðreynd.

Í leyfisbeiðni sinni byggði Benedikt að ummælin hefðu beinst að dómsstörfum hans. Ekki hefði áður reynt á sambærilegt ágreiningsefni fyrir Hæstarétti. Þá hefði dómur Landsréttar ekki nægjanlega tekið mið af dómaraframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu auk þess að dómurinn hefði gengið mun lengra en áður þekktist við túlkun á því hvað gæti talist gildisdómur.

„Loks telur [Benedikt] að málsmeðferðin fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant vegna nánar tilgreindra bréfaskipta og símtala [Jóns Steinars] við forseta Landsréttar, dómsformann málsins og skrifstofustjóra réttarins um skipun dómsins, sem hann hafi ekki verið upplýstur um. Jafnræðis hafi því ekki verið gætt með aðilum við málsmeðferðina og brotið gegn 1. mgr. 24. gr. [dómstólalaga] um að tilviljun ráði hvaða dómari fái mál til meðferðar,“ sagði í leyfisbeiðni Benedikts.

Hæstiréttur féllst á beiðnina með þeim rökum að það væri mat réttarins að dómur í málinu myndi hafa „almennt gildi um álitaefni varðandi frelsi lögmanna, og annarra sérfróðra aðila sem gegna ábyrgðarhlutverki innan réttarvörslukerfisins, til að tjá sig opinberlega um embættisverk dómara.“ Úrlausnin gæti því haft verulegt almennt gildi umfram eldri úrlausnir í meiðyrðamálum.

Næsta víst er að setudómarar muni skipa dómarabekkinn þegar málið verður flutt í Hæstarétti en það verður tilfellið þegar mál Lögmannafélags Íslands gegn Jóni Steinari verður flutt. Héraðsdómararnir Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Kristrún Kristinsdóttir, auk lögmannsins Þórunnar Guðmundsdóttur, stóðu að málsskotsákvörðun Hæstaréttar í málinu.