Gengi nær allra félaga lækkaði á eldrauðum degi í Kauphöllinni í dag. Heildarveltan var frekar lítil, um 2,9 milljarðar króna. OMXI10 hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,68% og stendur nú í 3.236,21 stigum

Gengi hlutabréfa Icelandair lækkaði mest á aðalmarkaði í viðskiptum dagsins, um 4,7% í 250 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkaði gengi hlutabréfa Kviku banka, um 2,67% í 380 milljóna króna viðskiptum. Iceland Seafood lækkaði einnig um 2,67%, í 125 milljóna króna viðskiptum. Tryggingafélagið VÍS lækkaði jafnframt um 2,46% í 117 milljóna króna viðskiptum.

Mesta veltan var með bréf Arion banka en viðskipti með bréfin námu 760 milljónum króna og lækkaði gengi félagsins um 1,34% í viðskiptum dagsins. Næst mesta veltan var með bréf Marel en viðskipti með bréfin námu 520 milljónum króna, en gengi félagsins lækkaði um 1,44% í viðskiptum dagsins.

Á First North markaðnum lækkaði flugfélagið Play um 4,58% í 15 milljóna króna viðskiptum. Gengi Hampiðjunnar lækkaði um 12% og gengi Solid Clouds um 6% í óverulegum viðskiptum eða 250 þúsund krónur í tilfelli Hampiðjunnar og 19 þúsund krónur í tilfelli Solid Clouds.