Ljósamaðurinn Finnur Þór Guðjónsson, stofnaði nýverið fyrirtækið Flicker Free ehf. Markmið fyrirtækisins er að taka að sér verkefni í kvikmyndaiðnaðinum og sérhæfir Finnur sig í því að sjá um ljósabúnað. Finnur hefur starfað í tuttugu ár við kvikmyndaiðnaðinn og vill nú nýta þá reynslu sem honum hefur fallið í skaut í fyrirtækjarekstri.

Hyggst Finnur taka að sér verkefni sem ljósamaður hér heima að sinni. Finnur ákvað að stofna fyrirtækið til að einfalda vinnu sína sem ljósamaður. Hann hefur mikla reynslu bæði frá Íslandi og Svíþjóð þar sem hann tók meðal annars þátt í upptökum á kvikmyndinni The Girl with the Dragon Tattoo. Hér heima hefur hann meðal annars tekið þátt í gerð Flags of Our Fathers.

Bæði með góðan markað í Svíþjóð og hér heima

Finnur gekk í kvikmyndaskóla í Svíþjóð á tíunda áratugnum. Hann byrjaði í kjölfarið að starfa í kvikmyndabransanum í Stokkhólmi 1995 sem svo kallaður „gaffer“eða yfirmaður ljósadeildar. Þar vann hann við gerð margra kvikmynda. Hann flutti aftur heim og svo aftur út og því hefur verið talsvert rót á Finni. „Ég er með svolítið góðan markað bæði hér heima og úti. Það er því auðvelt að flytjast á milli,“ segir Finnur. Nýlega starfaði hann við framleiðslu myndarinnar Eiðurinn eftir Baltasar Kormák. Þegar hann er spurður út í stærsta verkefnið sem hann hefur tekið sér fyrir hendur nefnir hann kvikmyndina The Girl with the Dragon Tattoo og á þá við bandarísku útgáfu myndarinnar með Daniel Craig í aðalhlutverki.

„Það er náttúrulega mjög skemmtilegt að vinna við þetta, þetta er skemmtilegur lífsstíll þar sem maður lifir í núinu og það eru alltaf einhver ný verkefni og áskoranir.“ Hann telur trúverðugleika sinn í faginu sífellt aukast með árinu og að það skipti mestu máli í þessum bransa.

Andlit á skjá í afmæli sonarins

Finnur telur þó einhvern mun á verkefnunum hér heima og „Hollywood-verkefnunum“ sem hann hefur tekið þátt í. „Undirbúningurinn er svo miklu meiri í Hollywood. Það er spurning um að vera með 200 manns á setti eða vera með 30 manns. Skalinn er allt annar.“ Spurður út í vinnumenningu hér heima og svo úti í Svíþjóð telur hann umhverfið þar „barnvænna og þægilegra“.

Þar vinni fólk nokkurn veginn bara 9-5 og taki sér langt sumarfrí. Hér heima líkir hann vinnutímum við túra sjómanna. „Þetta er annars hægt með þökk Skype, til dæmis þá tók ég þátt í afmæli sonar míns við upptökur á The Girl with the Dragon Tattoo í gegnum Skype“ segir Finnur. Hann hefur því ekki mikinn tíma fyrir áhugamál fyrir utan vinnuna. Það hafi þó alltaf verið á döfinni að finna sér einhver áhugamál. „Þegar framleiðslan er í gangi, þá er ekki tími fyrir mikið annað,“ segir Finnur. „Maður reynir þó að fara í ræktina til að styrkja sig, þar sem starfið er líkamlega erfitt.“

Finnur segir að starfsumhverfið í kvikmyndaiðnaðinum sé þó frábært. „Þetta eru eldsálir sem taka þátt í þessum bransa. Þetta er mjög skemmtilegt fólk með mjög opinn huga.“ Þau stóru verkefni sem hann hefur tekið þátt í hafa tekið mjög á og kallar hann því fólkið sem hann hefur unnið með hugrakkt, það er ekki allra að vinna við gerð kvikmynda að mati Finns.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .