Þyrluþjónustan Helo fékk á síðasta ári nýja Bell407GX þyrlu sem búin er öllum þeim þægindum og lúxus sem útsýnisþyrla þarf á að halda. Þar má helst nefna sérsniðna útkúpta glugga sem ná frá lofti og niður í gólf, hvít leðursæti og BOSE heyrnartólum. Þá er þyrlan útbúin fjórum spöðum sem gerir flugið þýðara auk þess sem hún er sérstaklega hljóðeinangruð.

Að sögn Andra Ómarssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, njóta útsýnisferðir á borð við „The Golden Experience“ (Gyllta upplifunin) mikilla vinsælda en þar er flogið yfir Glym og Gullfoss, lent á Langjökli og hjá Geysi áður en flogið er yfir Þingvelli á leiðinni heim. Þá heldur Eyjafjallajökull áfram að draga ferðamenn að, og enn talsvert af fyrirspurnum um ferðir á eldstöðvarnar við jökulinn og Fimmvörðuháls.

Nánar er fjallað um málið í Flugblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu á fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .