*

mánudagur, 27. september 2021
Fólk 10. apríl 2019 10:18

Elísabet frá Marel til Orf Líftækni

Elísabet Austmann ráðin framkvæmdastjóri markaðssviðs ORF Líftækni frá Marel.

Ritstjórn
Elísabet Austmann kemur til Orf Líftækni frá Marel þar sem hún var forstöðumaður á alþjóðlegu markaðssviði.
Aðsend mynd

ORF Líftækni hefur ráðið Elísabetu Austmann til starfa sem framkvæmdastjóra markaðssviðs. Auk þess að leiða markaðsmál fyrirtækisins og vörumerkjauppbyggingu á húðvörulínunni BIOEFFECT mun Elísabet sitja í vöruþróunarráði félagsins. 

Elísabet hefur yfir fimmtán ára reynslu af markaðsmálum og vörumerkjastýringu þar af tólf við að markaðssetja íslenskar vörur eða þjónustu á erlendum mörkuðum.

Síðustu átta ár hefur hún starfað hjá Marel, fyrst sem sýningarstjóri, svo þróunarstjóri hjá Marel í Kaupmannahöfn þar sem hún sá um uppbyggingu og innleiðingu á sýningar- og þjálfunarhúsnæði fyrirtækisins.

Árið 2016 tók hún við sem forstöðumaður á alþjóðlegu markaðssviði og bar ábyrgð á vörumerkinu Marel og framleiðslu á markaðsefni fyrir fyrirtækið á alþjóðavísu. Að auki bar hún ábyrgð á endurmörkunarverkefni fyrirtækisins sem unnið er eftir í dag.

Elísabet er alþjóðamarkaðsfræðingur með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, hún hóf störf í byrjun apríl.

Um ORF líftækni

ORF Líftækni er fyrirtæki sem starfar í plöntulíftækni. Fyrirtækið framleiðir sérvirk prótein sem notuð eru sem innihaldsefni í BIOEFFECT húðvörur fyrirtækisins, seld til læknisfræðilegra rannsókna og nýtt í önnur þróunarverkefni fyrirtækisins.

ORF hefur þróað tækni til að framleiða slík prótein í byggi, en aðferðin er afrakstur tveggja áratuga vísinda- og þróunarstarfs.
BIOEFFECT vörurnar hafa fengið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir virkni og gæði og eru seldar um allan heim. ORF líftækni hefur vaxið hratt á undanförnum árum og hjá fyrirtækinu starfa nú ríflega 60 manns.