Vinsældir teiknimyndarinnar Frozen virðast engan endi ætla að taka. Framhaldsmyndin Frozen 2 var frumsýnd í kvikmyndahúsum um helgina og námu tekjur af frumsýningarhelginni um 350 milljónum dollara á heimsvísu samkvæmt frétt BBC.

Námu tekjur af myndinni um 127 milljónum dollara í Bandaríkjunum og um 223 milljónum dollara annars staðar í heiminum. Opnunarhelgin fór fram úr væntingum Disney, framleiðanda myndarinnar en gert hafði verið ráð fyrir um 120 milljóna tekjum á opnunarhelginni í Bandaríkjunum. Þá tók myndin langt fram úr opnunarhelgi fyrstu myndarinnar sem rakaði inn 93 milljónum dollara í Bandaríkjunum.

Eins og áður segir er Frozen 2 framhald af upprunalegu myndinni sem kom út árið 2013. Óhætt er að segja að fyrri myndin hafi skráð sig í sögubækurnar en hún er tekjuhæsta teiknimynd sögunnar en hún rakaði inn um 1,27 milljörðum dollara. Elsa, Anna og snjókarlinn Ólafur sem hafa verið tíðir gestir á heimilum ungra barna virðast því enn njóta mikilla vinsælda.