Snyrtivöruverslunin Glæsibæ, eina verslunin sem hefur verið starfrækt í Glæsibæ samfellt frá upphafi, hefur verið auglýst til sölu. Í auglýsingu í Morgunblaðinu kom fram að til standi að selja rekstur, birgðir og innanstokksmuni verslunarinnar.

Verslunin hefur verið starfrækt á sama stað í Glæsibæ frá því að verslunarmiðstöðin var opnuð árið 1970. Eigandinn Unnur Margrétsdóttir, sem tók við rekstrinum árið 1988, telur að nú sé réttur tími fyrir aðra til að taka við keflinu.

„Ef maður væri yngri þá myndi ég hiklaust halda áfram - reksturinn gengur vel. Eftir að hafa staðið vaktina í 34 ár ákvað ég að segja þetta gott,“ segir Unnur í samtali við Viðskiptablaðið.

Í auglýsingunni kemur fram að verslunin sé rúmir 100 fermetrar og stöðugildi séu að jafnaði 2-3. Auk snyrtivara selur búðin fatnað og fylgihluti með áherslu á fólk yfir fertugu. Verslunin selur vörur frá snyrtivörumerkjum á borð við Chanel, Lancome, Guerlain, Helena Rubenstein, Bioterm og Bioeffect auk ilmvatna.