Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að auglýsa embætti landlæknis laust til umsóknar. Hann hefur tilkynnt Geir Gunnlaugssyni landlækni um ákvörðun sína, að því er fram kemur í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu .

Fimm ára skipunartími landlæknis rennur út 31. desember næstkomandi. Samkvæmt lögum ber ráðherra að tilkynna embættismanni eigi síður en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út hvort starfið verði auglýst til umsóknar. Sé það ekki gert framlengist skipunartíminn sjálfkrafa um fimm ár.

Embætti landlæknis verður því auglýst laust til umsóknar á næstu dögum, frá 1. janúar 2015.