(Fréttagreinin var fyrst birt á vb.is þann 7. janúar)

Óhætt er að segja að margir á Norðurlöndum undrist mikil uppkaup íslenskra fjárfesta á skandinavískum fyrirtækjamarkaði. Þess sér stað á spjallsíðum sænskra netmiðla núna og má benda á fjöruga umræðu um málið á vef Dagens Industri í Svíþjóð.

Fullyrða má að umræðan sem þar birtist kristalli ágætlega vangaveltur manna víða um Skandinavíu. Umræðan hófst í kringum kaup Pálma Haraldssonar fjárfestis á auknum hlut í Ticket og á spjallþráðum tengdum fréttinni kom enn á ný upp umræða um hvaðan Íslendingar fái alla þessa peninga. Nokkrir sem tóku þátt í umræðunni hvöttu sænska fjölmiðla til þess að gera nú almennileg rannsókn á því hvaðan peningarnir koma og tveir þátttakendur rifjuðu upp sögur um rússneska mafíupeninga.

Aðrir taka upp hanskann fyrir Íslendinga og segja að menn megi ekki vera öfundsjúkir, augljóst sé að mikill kraftur sé í íslensku efnahagslífi og menn ættu fremur að taka áræðni og djörfung íslensku fjárfestanna sér til fyrirmyndar fremur en að öfundast út í þá. "Íslendingar hafa kraft, kunnáttu og hugrekki til þess að koma hlutunum í verk," segir einn þátttakandi og annar segir að sænskt viðskiptalíf eigi að vera þakklátt fyrir að það finnist athafnamenn eins og Íslendingarnir.