Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir að við því var að búast að hagnaður bankanna væri fyrst og fremst af óreglulegum liðum.Elín er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Nýlega gaf Bankasýslan út skýrslu um starfsemi stofnunarinnar á árinu 2010. Þar er að finna samantekt á stöðu og rekstri bankanna á síðasta ári. Kemur fram að hagnaður á árinu 2009 hafi að stórum hluta verið af óreglulegum liðum. Undir það flokkast endurmat eigna og gengishagnaður, en það fyrrnefnda vegur þungt í hagnaði bankanna á síðasta ári.

Hagnaður af reglulegri starfsemi tveggja bankanna, Landsbankans og Arion banka, var lítill sem enginn og ljóst að sú starfsemi stendur ekki undir arðsemiskröfum. Elín segir að þegar fjármálakerfi hefur lagst á hliðina þá sé þetta einfaldega staðan.

„Ég myndi ekki segja að þetta væri áhyggjuefni því við þessu var að búast. En við erum að vinna að enduruppbyggingu og það þarf að horfast í augu við raunveruleikann og vinna út frá því. Við verðum að átta okkur á því að það er ekki einfaldlega hægt að horfa á hagnað bankanna á síðasta ári og álykta að allt sé í blóma hjá fjármálafyrirtækjum."