Það hefur ekki farið fram hjá neinum gesti tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves á dögunum að Gamla bíó hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga. Öll sæti hússins hafa verið fjarlægð og það gert upp svo það verði hægt að nýta í fjölbreyttari tilgangi en áður.

Einn þeirra sem standa að baki endurnýjun Gamla bíós er Guðvarður Gíslason en hann segir viðtökurnar hafa verið frábærar eftir að húsið var opnað um helgina. Hann fékk fjárfesta með sér í lið til að kaupa húsið í mars árið 2013 og í kjölfarið var tekin ákvörðun um að slétta gólfið svo hægt yrði að nýta það betur.

„Það stoppar varla síminn vegna brúðkaupa,“ segir Guðvarður en hægt er að vera með allt að 320 manns í sæti í húsnæðinu en fyrir standandi tónleika geta allt að 750 manns verið á báðum hæðum hússins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .