Óhætt er að segja að skipan seðlabankastjóra og ferlið í kringum þá skipan hafi ýft fjaðrir innan stjórnarmeirihlutans, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins. Sú ákvörðun að skipa Má Guðmundsson á ný í embætti seðlabankastjóra virðist hafa komið mörgum sjálfstæðismanninum á óvart, en skipanin hefur runnið betur ofan í framsóknarmenn, sem margir settu sig mjög upp á móti hugmyndum um skipan Friðriks Más Baldurssonar í embættið. Viðskiptablaðið ræddi við nokkra þingmenn og innanbúðarmenn í stjórnarflokkunum tveimur.

Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins segist hafa fengið fjölda símtala og skilaboða eftir að greint var frá skipan Más frá ósáttum flokksmönnum. Nokkrir sjálfstæðismenn segjast hafa gengið út frá því í upphafi að Ragnar Árnason yrði skipaður í embættið. Af þeim þremur umsækjendum um embættið sem töldust hæfastir nyti Ragnar mestrar virðingar meðal flokksmanna. Alltént segjast þeir hafa gert ráð fyrir því að Ragnar eða Friðrik Már yrðu skipaðir, því vart hefði fjármálaráðherra ákveðið að fara í þá vegferð að auglýsa starfið laust til umsóknar ef ekki væri ætlunin að skipta um seðlabankastjóra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .