Landsbankinn hefur nú lokið  leiðréttingu endurreiknings á um 18.000 lánum sem kváðu á um ólögmæta gengistrygginu, þar með talið bílalána (bílalán og bílasamningar), fasteignalána og lána til fyrirtækja). Samanlögð fjárhæð þessara leiðréttinga nemur um 21 milljarði króna.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að undanfarna mánuði hafi verið lögð áhersla á að reikna lán sem féllu undir dóm Hæstaréttar í svokölluðu Plastiðjumáli. Lokið hafi verið við að leiðrétta um 90% þeirra lána. Leiðrétting endurreiknings þeirra lána og samninga sem eftir eru hefur reynst flóknari og tímafrekari en áætlað var í fyrstu.

Í kjölfar nýlegra dóma Hæstaréttar sem vörðuðu uppgreidda saminga og fjármögnunarleigusamninga, liggur fyrir að leiðrétta og endurreikna þarf um 17.000 lán til viðbótar því sem áður var talið en stefnir á að ljúka útreikningum á fyrri hluta ársins.