Íslensk stjórnvöld stóðu frammi fyrir ótrúlegum og áður óþekktum aðstæðum í október 2008. Gripið var til þess ráðs að setja neyðarlög í landinu, skipta föllnum bönkum upp í nýja og gamla og skilja erlendar eignir og skuldbindingar eftir í þeim gömlu. Hinir nýju voru hins vegar endurreistir með nýjan efnahagsreikning og allar innlendar innstæður færðar inn í þá.

Gagnrýnisraddir á aðgerðir ríkisvaldsins hafa verið þó nokkrar. Þær hafa helst snúist um að aðrar, og hefðbundnari leiðir, hefðu verið færar við þær aðstæður sem sköpuðust. Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna, sem Þorsteinn Þorsteinsson skrifaði og var kynnt í ríkisstjórn í lok mars, er fjallað um þá valkosti sem hafa verið helst nefndir af gagnrýnisröddunum.

1.Ríkisábyrgð á öllum innstæðum hefði skapað „óleysanleg vandamál“

Einn þeirra valkosta sem íslensk stjórnvöld stóðu frammi fyrir var að íslenska ríkið ábyrgðist, í formi yfirlýsingar, allar innstæður föllnu bankanna, jafnt innlendar sem erlendar. Slík yfirlýsing þarf þó fyrst og fremst að verða trúverðug, þ.e. ríkissjóður þarf að geta sýnt fram á að hann gæti staðið við hana. Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að það hafi hann aldrei getað gert.

Þar segir að heildarinnstæður í  Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum við fall þeirra hafi samtals numið um 2.770 milljörðum króna. Tæpur helmingur þeirra var í erlendum myntum í erlendum útibúum eða dótturbönkum þeirra. Innlend innlán almennra viðskiptamanna, Seðlabankans, annarra fjármálafyrirtækja hjá bönkunum þremur námu síðan 1.438 milljörðum króna.

Ekki trúverðugt

Á sama tíma voru árlegar tekjur íslenska ríkisins samkvæmt fjárlögum um 460 milljarðar króna og gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands var um 410 milljarðar króna, eða um 31% af erlendum innstæðum föllnu bankanna.

Í skýrslunni segir að „þegar litið er á þessar tölur er það augljóst að heildartrygging íslenska ríkisins á öllum innstæðum í íslensku bönkunum var ekki trúverðug þar sem íslensk stjórnvöld höfðu enga fjárhagslega burði til að standa við slíka yfirlýsingu. Úttektir innstæðueigenda hefðu samstundis skapað óleysanleg vandamál. Slík heildartrygging af hálfu ríkisins hefði því ekki leyst vanda bankanna og íslenska hagkerfisins“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.