Saksóknari New York-fylkis undirbýr nú málsókn gegn endurskoðendafyrirtækinu Ernst og Young vegna endurskoðunar á ársreikningum Lehman Brothers. Bankinn varð gjaldþrota í september 2008.

Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.

Segir að ákæran verði sú fyrsta í Bandaríkjunum sem snýr að endurskoðendum og vinnu þeirra á árunum fyrir fjármálakrísuna. Í mars síðastliðnum var gefin út 2.200 blaðsíðna skýrsla um rekstur Lehman Brothers . Þar var lögð sérstök áhersla á það sem kallað er „Repo 105“, bókhaldsbrellu sem lét rekstur bankans líta út fyrir að vera áhættuminni en raunin var.

Anton Valukas, einn þeirra er könnuðu rekstur Lehman Brothers og rituðu skýrsluna, segir að Repo 105 brellan hafi eingöngu verið notuð til að bæta stöðu bankans í bókhaldinu.