Enex, ungverska olíu- og gasfélagið MOL og ástralska fjárfestingarfyrirtækið Hercules/Vulcan undirrituðu í dag samstarfssamning sem markar upphafið að byggingu fyrstu jarðvarmastöðvar í Ungverjalandi sem ætluð er til raforkuframleiðslu. Stærð stöðvarinnar er áætluð um 3-5 MW segir í tilkynningu þeirra.

Heildarkostnaður vegna þessa verkefnis er áætlaður um 18,3 milljónir evra eða sem samsvarar tæpum einum og hálfum milljarði íslenskra króna. Hlutur Enex í fjárfestingunni er 32%.

?Enex lítur á samstarfið við sterkan ungverskan aðila og sérhæfðan alþjóðlegan fjárfesti sem mikilvægt skref í að virkja jarðvarma í Ungverjalandi til raforkuframleiðslu. Þetta er aðeins upphafið en gert er ráð fyrir að virkja megi um 100-500 MW af raforku úr jarðvarma í Ungverjalandi á næstu árum,? segir Lárus Elíasson, framkvæmdastjóri Enex í tilkynningunni.

MOL, ungverska olíu- og gasfélagið, á um 8.000 borholur í Ungverjalandi. Sumar holanna gefa heitt vatn sem nú er ætlunin að virkja með aðstoð íslenskrar þekkingar. Samtarf Enex og MOL hófst 2003. Hefur Enex verið MOL til ráðgjafar og metið tækifæri til virkjunar jarðvarma í Ungverjalandi, ekki síst vegna mikils fjölda borhola sem MOL á nú þegar.

Hercules er sérhæft ástralskt fjárfestingarfyrirtæki sem fjárfestir í orkulindum víðsvegar um heiminn í trausti þess að verð á orku og orkulindum muni fara hækkandi á komandi árum. Vulcan kft., ungverskt dótturfélag Hercules, er formlega aðili að samstarfssamningnum við Enex.

Enex er í eigu íslenskra aðila og er þátttakandi í jarðvarma- og jarðorkuverkefnum víða um heim. Fyrirtækið kemur að hönnun verkefna, fjármögnun að hluta eða öllu leyti, byggingarframkvæmdum og rekstri orkuvera.