*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 21. október 2021 12:01

Engar bætur fyrir mál gegn pabba

Kona hefur stefnt föður sínum til viðurkenningar á því að hún sé eigandi fasteignar sem hann tók yfir til málamynda.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Kona á ekki rétt úr réttaraðstoðartryggingu sem hún er með gegnum fjölskyldutryggingu sína þar sem umrætt dómsmál varðar hana sem eiganda fasteignarinnar. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þrátt fyrir að konan sé ekki þinglýstur eigandi eignarinnar.

Af atvikalýsingu málsins má ráða að konan hafi höfðað mál gegn föður sínum og eiginmanni en dómkrafan hljóðar upp á að föðurnum verði gert að afsala eignarhluta sínum í eigninni til dótturinnar.

Hjónin bjuggu í eign sem þau leigðu en höfðu hug á að kaupa en af margvíslegum ástæðum gekk illa að komast gegnum greiðslumat. Þau ákváðu því að faðir konunnar yrði skráður tilboðsgjafi og lántaki að hluta vegna kaupanna. Þau stóðu aftur á móti skil á samningsgreiðslum, afborgunum, sköttum og gjöldum. Í raun hafi faðirinn aðeins verið þinglýstur eigandi til málamynda og bar honum, samkvæmt málatilbúnaði dótturinnar, skömmu eftir kaupin að afsala eignarhluta sínum til dótturinnar. Það gerði hann aftur á móti ekki og varð af því dómsmál.

Þinglýsing ekki nauðsynleg

Dóttirin leitaði til tryggingafélags síns til að fá greiðslu úr réttaraðstoðartryggingu sinni en alvanalegt er í skilmálum þeirra að þær taki ekki til mála sem varða starf eða fasteign viðkomandi. Í málinu hafnaði tryggingafélagið bótaskyldu þar sem að málið varðaði hana sem eiganda umræddrar eignar.

Því vildi konan ekki una og kærði málið til nefndarinnar. Um væri að ræða undanþáguákvæði en þau beri almennt að túlka þröngt. Þar sem hún væri ekki þinglýstur eigandi þá gæti undanþágan ekki átt við hana. Tryggingafélagið sagði á móti að það skyti skökku við að konan héldi því fram að hún væri ekki eigandi eignarinnar þegar dómkrafa málsins lyti að því að hún væri réttmætur eigandi eignarinnar.

Í niðurstöðu nefndarinnar sagði að ekki yrði fallist á það með konunni að beita annarri túlkun á hugtakinu „eigandi“ en leiðir af orðanna hljóðan. Hugtakið hafi samkvæmt almennum málskilningi víðari skírskotun en „þinglýstur eigandi“. Ágreiningurinn lyti að meginstefnu að eignarhaldi á fasteigninni og varðaði hana sem eiganda hennar. Var kröfu hennar fyrir nefndinni því hafnað.

Stikkorð: í í í í í í í Úrskurðarnefnd vátryggingamálum