*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 16. desember 2014 10:38

Engar sérstakar ástæður fyrir fækkun ferða

WOW air hefur fækkað ferðum til Kaupmannahafnar á næsta ári. Upplýsingafulltrúi segir ekkert óvenjulegt við fækkunina.

Ritstjórn

WOW air hefur ákveðið að fækka ferðum til Kaupmannahafnar í byrjun næsta árs, en Túristi greindi frá málinu í gær. Þannig hafði verið gert ráð fyrir daglegu morgunflugi til dönsku höfuðborgarinnar í flugáætlun flugfélagsins fyrstu þrjá mánuði ársins, en í bókunarvélinni á heimasíðu þess hefur ferðunum hins vegar verið fækkað niður í allt að þrjár á viku.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, segir í samtali við Viðskiptablaðið að engar sérstakar ástæður séu fyrir fækkun ferðanna og flugáætlanir flugfélaga taki stöðugum breytingum. Því sé ekki óvenjulegt að ferðunum hafi verið fækkað. Aðspurð hvort fækkun ferðanna megi rekja til minni eftirspurnar en gert hafi verið ráð fyrir segir hún svo ekki vera.