Hvorki Kaupþing né Jóhannes Rúnar Jóhannsson, formaður slitastjórnar Kaupþings, hafa fengið upplýsingar eða gögn um skaðabótakröfu Vincent Thenguiz á hendur þeim. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaupþingi.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að Vincent Thenguiz hefði lagt fram 2,2 milljarða punda skaðabótakröfu á hendur Grant Thornton í Bretlandi, Kaupþingi, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, formanni slitastjórnar Kaupþings, Stephen John Akers og Hossein Hamedani, en þeir eru meðal eigenda Grant Thornton.

Telur hann þá bera ábyrgð á tjóni sem hann varð fyrir vegna rannsóknar efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar á lánveitingum Kaupþings til félaga á vegum hans og bróðurnum Robert Thenguiz.

Í tilkynningu Kaupþings segir jafnframt að það sé ekki stefna þess að fjalla um einstök viðskiptatengd málefni en þó megi segja að þær ásakanir sem hafi komið fram á hendur Kaupþingi og Jóhannesi Rúnari séu með öllu tilhæfulausar.