Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar og rektor á Bifröst, segir mikilvægt að gerð verði eigendastefna ríkisins um eignarhald í orkufyrirtækjum. Hún fagnar því að nú sé unnið að gerð slíkrar stefnu innan fjármálaráðuneytisins og segir mikilvægt að hlutverkaskipti séu í skorðum. „Við hjá Landsvirkjun höfum ekki átt í neinum vandræðum með samskipti við núverandi stjórnvöld og að mínu mati hafa þau gengið vel. En það er mikilvægt að hlutirnir séu skýrir því við getum alltaf fengið stjórnvöld sem beita sér á óeðlilegan hátt. Ef allir hlutaðeigandi hafa skýrt og afmarkað hlutverk þá geta hlutirnir gengið vel upp,“ segir Bryndís.

„Ég hef nefnt það áður að mér finnst þingmenn stundum ekki átta sig á hlutverki sínu. Við sáum dæmi um það nýlega að þingmenn þrýstu á að gengið yrði til samninga við Alcoa um álver á Bakka. Þingmennirnir meina vel og þetta er gert með góðum hug. En ef sú tillaga yrði samþykkt og gerð að stefnu stjórnvalda þá veikir það samningsstöðu Landsvirkjunar um sölu rafmagns. Samningsstaða Landsvirkjun og tækifæri hennar til að ná ásættanlegum samningum er gerð að engu ef að Alþingi Íslendinga er búið að ákveða við hvern skal semja. Þetta er hugsunin að baki nýrrar sýnar félagsins, segir Bryndís. „Við höfum lagt áherslu á mikilvægi þess að umgangast fyrirtækið af nákvæmlega sömu virðingu og önnur fyrirtæki, þótt það sé í eigu ríkisins, og gera því kleift að starfa á viðskiptalegum forsendum.“

Ítarlegra viðtal við Bryndís má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak undir liðnum tölublöð hér að ofan.