Hamborgarakeðjan McDonalds ætlar að hætta viðskiptum við tómatsósuframleiðandann H.J. Heinz. Ástæðan eru forstjóraskipti hjá tómatsósuframleiðandanum, þar sem Bernando Hees mun brátt stýra fyrirtækinu. Hann var áður forstjóri Burger King, helsta samkeppnisaðila McDonalds.

Greint er frá málinu á vefsíðu Wall Street Journal í dag. Forstjórabreytingarnar eru gerðar í kjölfar yfirtöku Berkshire Hathaway og brasilíska félagsins 3G Capital á Heinz.

Talið er ólíklegt að áhrif ákvörðunar McDonalds verði mikil fyrir Heinz, því aðeins lítill hluti McDonalds skyndibitastaða nota tómatsósu frá Heinz. Ákvörðunin er þó nokkuð bakslag fyrir Heinz, því framleiðandinn hefur frá árinu 2006 markvisst reynt að auka viðskipti sín við McDonalds.