Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins hafa ekki komist að samkomulagi um hvernig eigi að bjarga bönkum sem þarfnast hjálpar í framtíðarbankakreppum. 20 tíma viðræður á laugardag skiluðu engu samkomulagi um það hvort innstæðueigendur ætti að bera einhvern hluta af kostnaði við bankaáföll. Áfram verður rætt um málið á meðal stjórnenda sambandsins á miðvikudag. Í umfjöllun BBC um málið er haft eftir Pirre Moscovici, fjármálaráðherra Frakklands að hann efist ekki um að samkomulag muni nást.

Viðræðurnar sem fóru fram í Lúxemborg í gær snéru að því að búa til reglur sem ákvarða kostnað kröfuhafa og innstæðueigenda við björgun banka. Deilt var um hvort aðferðarfræðin sem var viðhöfð í Kýpur ætti að vera fordæmi eða hvort kostnaður ætti ekki að falla á innstæðueigendur.

Bretar eru sagðir vera á meðal þeirra sem vilja ekki vera bundnir af reglum Evrópusambandsins þar sem þeir vilja hafa sveigjanleika um það hvort innstæðueigendur verði látnir taka á sig kostnað við bankaáföll.