Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir greinilegt að Reykjavík Energy Invest sé enn rekið í samræmi við það sem lagt hafi verið upp með af Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma. Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir erfitt að sjá nokkra stefnu hjá Sjálfstæðisflokknum í málefnum REI.

Enn á ný urðu heitar umræður um málefni REI á fundi borgarstjórnar í vikunni. Tilefnið var för Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna og stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur og REI, og fleiri til Afríku nýverið.

Í ferðinni var meðal annars ritað undir samkomulag milli REI og ríkisstjórnar Djíbútí um gerð ítarlegrar hagkvæmniathugunar á nýtingu jarðhita í landinu.

Þá var í Jemen skrifað undir minnisblað um frekari viðræður í jarðhitamálum milli REI og orkufyrirtækis jemenska ríkisins, en sambærilegt minnisblað var undirritað í Eþíópíu 21. janúar síðastliðinn. Kjartan sagði meðal annars á fundi borgarstjórnar að Orkuveitan myndi með einhverjum hætti halda áfram í orkuútrás.

Stefnan breytist frá fjölmiðli til fjölmiðils

Björn Ingi sagði, þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum í gær, að hann vildi lítið sem ekkert tjá sig um þessi mál í ljósi þess að hann væri hættur afskiptum af stjórnmálum. Því vildi hann ekki blanda sér í deilumál dagsins í dag.

Hann tók þó fram að það væri greinilegt að REI væri enn rekið í samræmi við það sem lagt var upp með af Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma og að allt tal um að samkrull einkaaðila og opinbers rekstrar væri eins og olía og vatn ætti greinilega ekki lengur við. Því væri erfitt að koma þessu öllu heim og saman.

Dagur sagðist í gær aðspurður lítið skilja hvað Sjálfstæðisflokkurinn væri að fara með REI. Stefnan breyttist frá fjölmiðli til fjölmiðils eftir því hvernig spurningarnar væru.

Þegar Dagur var spurður hvort REI væri að stefna í sömu átt og í tíð hans sjálfs sem borgarstjóra svaraði hann: „Það var sameiginleg þverpólitísk niðurstaða að REI ætti að vera hundrað prósent í eigu borgarinnar og að leita ætti samstarfs við einkaaðila í einstök verkefni eftir því sem tilefni gæfust til. Þetta var niðurstaðan eftir mjög ítarlega vinnu,“ segir hann og bætir við að nú sé hins vegar annað uppi á teningnum hjá sjálfstæðismönnum.

Hann segir að Kjartan tali nú jafnvel um sölu fyrirtækisins, en reyndar sé erfitt að átta sig á afstöðu hans, því margar skoðanir komi fram í einu og sama viðtalinu.