Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi ráðherra, tekur undir þau ályktunardrög sem nú liggja fyrir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um að farið verði í atkvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Landsfundurinn ræðir nú Evrópumál. Fyrir umræðuna lagði einn fundarmanna til að Evrópuályktunin yrði tekin út af dagskrá en hún var felld með miklum yfirgnæfandi mun.

Björn Bjarnason lagði áherslu á það í ræðu sinni á fundinum að með því að samþykkja að sækja um aðild væru Íslendingar þegar að afsala sér yfirráðum yfir auðlindunum og kippa fótunum undan landbúnaðinum. Um það verði með öðrum orðum ekki samið. Hann sagði að þetta yrði að vera skýrt verði umsókn lögð fram.

Hann sagði að það væri því fráleitt að líta svo á að það væri einhver leikaraskapur að greiða atkvæði um hvort sækja eigi um aðild. Með því að sækja um værum við að afsala okkur ákveðnum réttindum.

Samfylkin vill troða okkur í ESB hvað sem tautar og raular

Björn gerði hryðjuverkalög Breta að umtalsefni og sagði að með óréttmætum hætti sætum við enn á bekk með hryðjuverkamönnum. Hann sagði að ESB ríkin hefðu staðið með Bretum í þessum efnum.

Hann sagði að utanríkisráðherra í fyrri ríkisstjórn og þeir sem hefðu átt að gæta Íslands á alþjóðavettvangi hefðu ekki barist gegn þessu ofbeldisverki Breta í garð okkar Íslendinga með þeirri reisn sem þurfti strax síðasta haust.

„Ein ástæðan er vilji þessa fólks [Samfylkingarinnar] til að troða okkur í Evrópusambandið hvað sem tautar og raular," sagði hann.