Hrefna Rósa Sætran, landsliðskokkur og eigandi tveggja vinsælla veitingastaða, Grillmarkaðarins og Fiskmarkaðarins, var ófrísk þegar verið var að undirbúa opnun Grillmarkaðarins fyrr á þessu ári en hún eignaðist sitt fyrsta barn, lítinn son, um miðjan september.

Það er því ekki úr vegi að spyrja hvernig það fari saman að vera með lítið barn og reka tvo umsvifamikla veitingastaði.

„Það gengur bara mjög vel. Ég hélt að þetta yrði erfitt á nóttunni og auðvelt á daginn en það er ekki raunin. Við búum sem betur fer nálægt þannig að ég skýst á milli heimilis og vinnu eftir þörfum,“ segir Hrefna Rósa sem í viðtali við Viðskiptablaðið fjallar rekstur veitingastaða og matarmenninguna hér á landi, stöðu veitingageirans og margt fleira.

En svo við höldum áfram að spyrja um þig persónulega, var það markmið hjá þér að verða landsfrægur kokkur?

„Nei, í raun ekki,“ segir Hrefna Rósa og hlær.

„Fólki líður samt stundum eins og það þekki mig persónulega, stoppar mann út á götu eða hringir. Þá er fólk að biðja um ráð við matargerð, segja manni frá upplifun sinni á veitingastöðunum og svo eru aðrir sem hringja til að panta borð. Sumir vilja deila með sér hvað það eldaði og hvernig og svo framvegis. Ég hef mjög gaman af þessu.“

Þú vaktir fyrst athygli þegar þú varðst fyrsti kvenmaðurinn til að komast í kokkalandsliðið. Hvernig var það að ryðja þessa braut?

„Ég hafði lengi horft upp til þessara kalla sem voru alltaf að elda í sjónvarpinu og ákvað það að verða sjálf kokkur. Ég rak mig hins vegar fljótt á að það yrði ekki auðvelt að vera kona í þessum bransa og það þekktist ekki almennt að konur væru kokkar,“ segir Hrefna Rósa.

„Þegar ég hringdi í skólann til að spyrjast fyrir um kokkanám var ég spurð hvort ég vildi ekki bara frekar verða matartæknir. Ég tók fram að ég vildi verða kokkur en var sagt til baka að það væri miklu auðveldara að verða bara matartæknir ef maður væri kona.“

Hrefna Rósa segir að hún hafi ekki látið það stoppa sig heldur hafi hún ákveðið að hefja nám. Þá kom hún hins vegar að öðrum þröskuldi sem hún þurfti að yfirstíga.

„Þá kom á daginn að það vildi enginn taka mig á samning af því að ég var kona. Það hafa nokkrir sagt við mig að þeir hafi séð eftir því að hafa ekki tekið mig á samning á sínum tíma,“ segir Hrefna Rósa brosandi enda er óhætt að segja að hún hafi sannað sig í geiranum þrátt fyrir þennan mótbyr.

„Það var víða hlegið að mér þegar ég bað um að fá að koma á samning. Einhver lítil stelpa að koma og biðja um að fá að koma á samning. Ég ákvað nú samt að byrja að vinna og var ráðin á Apótekið sem ófaglærður kokkur. Mig langaði líka að prufa að vinna í eldhúsi á veitingastað. Þetta gekk vel og það fór þó þannig að staðurinn sótti um nemaleyfi og þannig fékk ég tækifæri til að klára námið. En þetta er að breytast og síðustu ár hafa fjölmargar stelpur byrjað að læra.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.