Ekki hefur enn verið tilkynnt um nýja hluthafa í MP banka. Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að nýir hluthafar muni eignast 75,65% í bankanum ef þeir kaupa nýtt hlutafé í honum fyrir þrjá milljarða króna. Núverandi hluthafar bankans munu þynnast að mestu út en fá kauprétt sem gæti tryggt þeim 30% hlut í bankanum kjósi þeir að nýta hann.

Skipta á bankanum í tvennt og núverandi hluthafar hans, undir forystu Margeirs Péturssonar, munu taka yfir erlenda starfsemi bankans og taka við eignum og skuldum hans sem tengjast Úkraínu. Viðskiptabankahluti hans verður hins vegar áfram rekinn á sömu kennitölu fáist nýir hluthafar til að leggja honum til fé. Þetta kemur fram í kynningargögnum sem kröfuhöfum, hluthöfum og væntanlegum fjárfestum MP banka voru kynnt í lok síðasta árs og sagt var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.