Matsfyrirtækið Moody?s tilkynnti í dag um breytingar á stuðningsgreiningu (e. Joint default analysis) sinni sem hefur verið afar umdeild síðan að hún var tekinn upp í lok febrúar. Þessar breytingar munu hafa í för með sér endurskoðun á lánshæfismati fjármálafyrirtækja og hugsanlegum breytingum á einkunnum þeirra í kjölfarið.En Moody´s mun endurskoða lánshæfismatseinkunnir á næstu vikum til að samræma þær að þeim breytingunum.

Eins og kunnugt er breytti Moody´s aðferðafræði sinni við að meta lánshæfismat fjármálafyrirtækja í lok febrúar sem varð til þess að 16 evrópsk fjármálafyrirtæki þar á meðal íslensku viðskiptabankarnir þrír færðust upp í Aaa sem er hæsta einkunn sem gefinn er. Þessar hækkanir komu í kjölfar þess að Moody´s tók upp stuðningsgreininguna sem tekur mun meira tillit en áður til stuðnings stjórnvalda við fjármálafyrirtæki og vægi þeirra á heimamarkaði.

Stuðningsgreiningin og hin nýja aðferðafræði var hinsvegar gagnrýnt harðlega sem varð að lokum til þess að Moody´s tók hana til ítarlegrar endurskoðunar sem nú hafa verið kynntar.

Samkvæmt Moody´s miðast breytingarnar við að fjárhagslegur styrkur fjármálafyrirtækjanna mun öðlast aukið vægi og ytri stuðningur minna vægi. Þannig munu einkunnirnar endurspegla raunverulegt áhættustig bankanna betur en áður. Moody´s áætlar að endurskoðun lánshæfismatseinkunna verði lokið þann 10 apríl og að í kjölfarið verði nýjar lánshæfismatseinkunnir kynntar.

Enn er óljóst hversu mikil áhrif þessar breytingar munu hafa á lánshæfismatseinunnir íslensku bankanna en hækkun þeirra upp í Aaa flokk hefur verið gagnrýnd víða.