Félag atvinnurekenda hefur þrýst á að fá svör frá fjármálaráðuneytinu varðandi spurningu sína um hvort til standi að boða útboð á flugfarmiðakaupum ríkisins. Ráðuneytið hefur engu svarað.

Í bréfi félagsins til ráðuneytisins segir að óumdeilt sé að innkaupin séu útboðsskyld. Enn fremur hafði fjármálaráðuneytið birt fréttatilkynningu þess efnis að útboðið myndi fara fram á fyrri hluta síðasta árs, en ekkert varð úr því.

Í bréfi FA til fjármálaráðuneytisins segir meðal annars:

„Í ljósi þess að nú er aftur kominn fyrri hluti árs, nema hvað það er árið á eftir árinu þegar útboðið átti að fara fram, leyfir FA sér að spyrja á ný hvenær standi til að bjóða út farmiðakaup ríkisins og binda þar með enda á brot á lögum um opinber innkaup, sem staðið hafa í meira en þrjú ár. Svar óskast sem fyrst.“