Farþegum í innanlandsflugi fækkar enn og í nýliðnum ágúst dróst fjöldi farþega á innanlandsflugvöllum um 15% miðað við sama mánuð í fyrra eða um 12 þúsund farþega. Fréttavefurinn turisti.is greinir frá þessu og segir að farþegum á innanlandsflugvöllum hafi farið fækkandi í samanburði við sama tíma árið á undan, allt frá því í janúar 2018.

Hlutfallslega var minnst fækkun á farþega á Egilsstaðaflugvelli eða um 6%. Farþegum sem fóru um flugvöllinn á Akureyri fækkaði um 12% og í Reykjavík fækkaði farþegum um 15,5%. Mest fækkaði farþegum á minni flugvöllum landsins, eins og í Vestmannaeyjum, Ísafirði, Húsavík og víðar, eða um rúm 26%.

Samtals voru farþegar innanlands ríflega 70 þúsund talsins í nýliðnum ágúst en það er 12 þúsund færri farþegar en í sama mánuði 2018.