*

laugardagur, 4. desember 2021
Erlent 6. október 2021 15:34

Enn keyrir Musk upp rafmyntaverð

Svo virðist sem nýi hundur Elon Musk hafi ýtt undir verð á rafmynt sem skírð er í höfuðið á japanskri veiðihundategund.

Ritstjórn
Elon Musk og Floki
EPA / Aðsend mynd

Rafmyntin Shiba Inu hefur meira en þrefaldast að virði á einni viku og er nú ein af tuttugu stærstu rafmyntum heims. Margir tengja verðhækkun rafmyntarinnar við tíst frá Elon Musk, stofnanda Tesla, á sunnudaginn þar sem hann deildi mynd af nýja hundinum sínum Floka.

Rafmyntin ber sama nafn og japanska veiðihundategundin Shiba Inu sem Floki er af. Musk, sem er í dag ríkasti maður heims samkvæmt lista Forbes, tilkynnti fyrst um að hann ætlaði að fá sér Floka í júní og fékk hundinn afhentan um miðjan septembermánuð.

Gengi rafmynta hafa hækkað verulega á undanförnum dögum. Verð á Bitcoin stendur nú í 54,7 þúsund dölum og hefur hækkað um þriðjung á einni viku. Ether, nærst stærsta rafmyntin, hefur á sama tíma hækkað um meira en 20%. Shiba Inu ber þó höfuð og herðar í verðhækkunum og hefur alls hækkað um tæplega 220% síðastliðna viku.

Meðbyrinn með rafmyntum skýrist meðal annars af hagstæðum árstíðatengdum þáttum og minni afskiptum frá Bandaríska seðlabankanum en búist var við, samkvæmt frétt Bloomberg.

Sjá einnig: Dýrasti brandari sögunnar?

Shiba Inu var stofnað á síðasta ári af óþekktum aðila sem gengur undir nafninu Ryoshi. Á vefsíðu rafmyntarinnar er hún kölluð „dreifstýrð jarm-mynt sem hefur þróast í þróttmikið vistkerfi“. Svo virðist sem Shiba Inu hafi verið stofnuð í sama tilgangi og rafmyntin Dogecoin sem Elon Musk hefur lengi hrifist af.

Stikkorð: Bitcoin Elon Musk Rafmynt Floki Shiba Inu