Hlutabréf í Kína lækkuðu enn frekar í dag og er lækkunin rakin til þess að búist er við því að á morgun muni nýjar hagtölur benda til þess að enn sé að hægja á kínverska hagkerfinu. Hang Seng vísitalan lækkaði um 0,8% í dag, en innan dags nam lækkunin tæplega þremur prósentum.

Undanfarnar tvær vikur hafa kínversk hlutabréf lækkað mjög mikið og hefur það leitt til lækkana á hlutabréfamörkuðum á heimsvísu. Vonast hafði verið til þess að lækkunarhrinan í Kína væri á enda runnin, en svo virðist ekki vera.

Í gær var greint frá því að kínversk yfirvöld hefðu handtekið 197 manns fyrir að dreifa orðrómum, m.a. um lækkanir á hlutabréfamarkaðnum. Aðrir glæpsamlegir orðrómar að mati yfirvalda sneru að sprengingunum í Tianjin og um væntanleg hátíðahöld vegna þess að í ár eru 70 ár liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.