Talsverðar lækkanir urðu á Bandaríkjamarkaði í dag, annan daginn í röð.

Atvinnuleysi hefur aukist í Bandaríkjunum og hefur það haft í för með sér vaxandi áhyggjur sem hefur haft víðtæk áhrif á markaði. Lánakostnaður hefur einnig aukist og bendir ýmislegt til þess að sú efnahagslægð sem nú gengur yfir sé langt frá því yfirstaðin.

Fjárfestar hafa því áhyggur af því að björgunaráætlun bandaríkjastjórnar, sem hljóðar upp á 700 milljarða bandaríkjadala, muni ekki duga til þess að skapa jafnvægi á mörkuðum. Frumvarp er varðar umrædda björgunaráætlun var samþykkt í öldungardeild Bandaríkjaþings en það bíður enn samþykkis fulltrúadeildar eftir að hafa verið fellt í fyrstu tilraun.

Iðnaðar- og framleiðslufyrirtæki virðast hafa lækkað talsvert. Caterpillar, Alcoa og Deere & Co lækkuðu um rúm 8% í dag. Nasdaq vísitalan lækkaði um 4,48%, Dow Jones lækkaði um 3,22% og Standard og Pours lækkaði um 4,03%

Olíuverð lækkaði um 4,90% og kostaði olíutunnan 93,70 bandaríkjadali við lokun markaða nú síðdegis.