Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja lækkanir dagsins til þess að fjárfestar hafi enn áhyggjur af frekar samdrætti á fjármálamörkuðum.

Þá tilkynnti bandaríski bankinn Citigroup að hann hygðist segja upp allt að 50 þúsund manns og olli sú yfirlýsing nokkrum óróa á mörkuðum beggja megin Atlantshafsins að sögn Reuters.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 2,8% í dag og hefur nú lækkað um 44% það sem af er þessu ári.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði HBOS um 13,9%, Royal Bank of Scotland um 8,5%, Credit Agricole um 8,7% og Dexia um 13,6% svo dæmi séu tekin.

Þá lækkuðu námu- og orkufyrirtæki einnig nokkuð í dag. Þannig lækkuðu félag á borð við BHP Billiton, Anglo American, Kazakhmys, Xstrata, Rio Tinto og Shell á bilinu 3,7% til 11,9%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,4%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2,4% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 3,2%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 3,3% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 3,2%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,7%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,7% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 3,4%.