Heildartekjur spilavíta í kínversku spilaborginni Macau námu þremur milljörðum bandaríkjadollara í nóvember og drógust þannig saman um 20% frá sama tímabili á síðasta ári. BBC News greinir frá þessu.

Macau er eina borgin í Kína þar sem starfsemi spilavíta er leyfileg. Þetta mun vera sjötti mánuðurinn í röð þar sem tekjurnar dragast saman á ársgrundvelli og fimmti mánuðurinn í röð þar sem tekjurnar lækka frá fyrri mánuði.

Sjálfstjórnarhéraðið Macau er stærsta spilaborg í heimi, en aðgerðir kínverskra stjórnvalda til þess að vinna gegn spillingu hafa orðið til þess að margir fjársterkir fjárhættuspilarar hafa haldið aftur af útgjöldum sínum. Einnig hafa mótmæli í Hong Kong haft sitt að segja, en þau hafa gert ferðir til borgarinnar nokkru erfiðari þar sem helsta samgönguleiðin til hennar er með ferju frá Hong Kong.