„Ég get ekki annað sagt en að ég er enn á þeirri skoðun að gengistryggðu lánin hafi verið hagstæð á þeim tíma þegar ég ráðlagði fólki að taka þannig lán fremur en verðtryggð,“ segir Ingólfur Ingólfsson, forsvarsmaður Fjármála heimilanna ehf., sem m.a. heldur úti vefnum spara.is.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda falls íslensku bankanna er m.a. vitnað til umræðu sem átti sér stað árið 2007 um hvort það væri skynsamlegt að taka gengistryggð lán. Hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, Ólafur Darri Andrason, sagði frá því í viðtali 23. janúar 2007 við Stöð 2 að fólk sem tæki gengistryggð húsnæðislán yrði að huga að gengisáhættu. Veiking krónunnar gæti þýtt hækkun lána og því væru lánin varasöm. Ingólfur brást við þessu með því að mæla eindregið með gengistryggðu lánunum. Einkum vegna hárra vaxta hér á landi og síðan verðtryggingarinnar.„Áhættan sem tekin er af verðtryggðum lánum, sem er í raun bara ein tegund afleiðu, var alltof mikil á þeim tíma sem ég mælti með þessum gengistryggðu lánum.“

Aðspurður hvort það eigi ekki einnig við um gengistryggðu lánin, ekki síst í ljósi gengisfallsins sem síðar kom fram á árinu 2008, segir Ingólfur kostnaðinn við verðtryggðu lánin eftir sem áður vera svipaðan. „Þrátt fyrir gengisfallið þá er kostnaðurinn við verðtryggðu lánin fyrir lántakendur svipaður og við gengistryggðu lánin. Vaxtakostnaðurinn við verðtryggðu lánin er gríðarlega hár hér á landi, ekki síst vegna stöðugt hárrar verðbólgu sem gerir lánskjör afar óhagstæð.“

Auk þess segir Ingólfur að hann hafi með engu móti getað séð fyrir algjört hrun krónunnar og gjaldeyrishöft árinu eftir að hann mælti eindregið með gengistryggðu lánunum. „Algjört hrun krónunnar var ekki fyrirsjáanlegt. Miðað við veikingu upp á 30 til 40%, frá því sem krónan var í upphafi árs 2007 hefðu gengistryggðu lánin margborgað sig. Auk þess tel ég, eins og áður sagði, að verðtryggðu lánin og gengistryggðu lánin sem tekin voru árið 2007 séu svipað dýr þegar horft er til þess tíma sem venjulega tekur að borga lán til baka að fullu.“

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.