Englandsbanki spáir því að verðbólga muni aukast eftir því sem nær líði vori og verði hún komin í 3% í sumar. Verðbólgumarkmið seðlabankans hljóðar upp á 2%. Það stendur nú í 2,7%. Seðlabankastjórinn Mervyn King sagði í dag líkur á að verðbólga verði yfir markmiðum næstu tvö árin. Þrátt fyrir þetta sagði hann tilefni til bjartsýni enda væri efnahagslíf Bretlands að jafna sig eftir fjármálakreppuna og að draga úr atvinnuleysi.

AP-fréttastofan segir seðlabankastjórann hafa sömuleiðis varað við því að þótt efnahagsbati sé í augnsýn þá þýði það ekki endilega að hann verði jafn og upp á við. Bankar og fjármálafyrirtæki landsins eigi enn eftir að taka til í lánasöfnum sínum auk þess sem óvissan í atvinnu- og efnahagsmálum hafi dregið úr eftirspurn innanlands.

„Þetta hefur ekki verið venjulegt samdráttarskeið og því mun batinn ekki verða hefðbundinn,“ sagði King.