*

föstudagur, 5. júní 2020
Fólk 27. október 2019 18:01

Er ekki fyrir að tapa

Sigríður Olgeirsdóttir, nýr sviðsstjóri þjónustu hjá Völku, er mikil keppnismanneskja, hvort sem í vinnu, golfi eða crossfit.

Höskuldur Marselíusarson
Sigríður Olgeirsdóttir er mikil keppnismanneskja og finnst gaman í í golfi, crossfit og vera í stjórnendahlutverkinu.
Ágústa Kristín Bjarnadóttir

„Það eru töluverð viðbrigði að söðla um og fara í sjávarútveginn, líkt og það var að fara í Íslandsbanka fyrir níu árum síðan en þá hafði ég aldrei unnið í banka. Þó að það sé búinn að vera frábær tími er alltaf gott að breyta til, en eftir því sem ég skoðaði og spurðist meira fyrir því meira spennandi varð að ganga til liðs við þetta gríðarlega flotta hátæknifyrirtæki,“ segir Sigríður Olgeirsdóttir, nýr sviðstjóri þjónustu hjá Völku.

„Valka er í mikilli uppbyggingu með að meðaltali 30% vöxt síðustu ár. Mitt hlutverk er að byggja upp alþjóðlegt þjónustusvið en helstu markaðssvæði okkar eru, auk Íslands, Noregur og restin af Evrópu, Bandaríkin og nú Rússland. Í framhaldinu metum við hvar er best að setja upp þjónustumiðstöðvar eða við finnum aðrar leiðir til að þjóna okkar viðskiptavinum með uppsetningu á nýjum búnaði, viðhaldi og svo þjónustu í framhaldinu sem tryggir sjávarútvegsfyrirtækjum öruggan og stöðugan rekstur.“
Sigríður hóf störf í tæknigeiranum þegar hún kom heim úr kerfisfræðinámi í Danmörku, fyrst hjá Skristofuvélum.

„Þetta var ekki algengasta námið á þessum tíma svo ég fékk bara vinnuna í gegnum símann frá Danmörku. Þá gerði maður allt, setti upp tölvurnar, var í sölunni og þjónustunni sem og í forrituninni og öllu í kringum þetta. Síðan hefur sérhæfingin orðið meiri en þetta var mjög traustur grunnur undir það sem síðar kom þegar ég lærði að reka fyrirtæki,“ segir Sigríður sem starfaði lengi sem framkvæmdastjóri tæknifyrirtækja.

„Þegar ég var að skoða hvað mig langaði að gera til framtíðar hugsaði ég einfaldlega að þessi tölvutækni væri örugglega eitthvað sem myndi endast, það var ekki flóknara en það. Forritunin var þó hálfgerð hebreska fyrir mér fyrst en svo einn daginn kviknaði ljós og þá var ekki aftur snúið og áhuginn vaknaður. Í tæknigeiranum er nauðsynlegt að halda sér við og læra að endurnýja sjálfan sig reglulega, annars dagar maður uppi.“

Sigríður segir að í því hafi hjálpað sér að hafa mikið keppnisskap. „Ég er ekki fyrir það að tapa, en ég og eiginmaðurinn minn, Sigurjón Gunnarsson verkefnastjóri hjá Kópavogsbæ, stundum mikið golf og ferðumst mikið til að stunda það, það er svona fjölskyldusportið okkar með börnunum. Við eigum saman tvær dætur og Sigurjón á tvo stráka og svo eigum við von á fyrsta barnabarninu í næsta mánuði. Þá erum mikið að setja upp alls konar keppnir, hver nær fæstum púttum og besta skorinu en svo hef ég áhuga á laxveiði, ég hleyp og var lengi í crossfit. Það er heillandi við bæði crossfit og golf að hægt er að mæla árangurinn og bæta sig líkt og maður gerir í stjórnendahlutverkinu.“