Hneykslið í kringum Volkswagen og langvinnt svindl fyrirtækisins á útblástursprófum í Bandaríkjunum er alvarlegra en Enron hneykslið í upphafi aldarinnar að mati David Bach, kennara við Yale School of Management. Í grein sem hann skrifar í Financial Times segir hann að vegna eðlis fyrirtækisins og brota þess gætu afleiðingarnar fyrir Volkswagen, fyrir þýskan iðnað og fyrir viðskiptalífið almennt orðið meiri en þegar upp komst um bókhaldssvik hjá orkurisanum Enron.

Segir hann að flest hneykslismál í viðskiptum eigi rætur sínar í gáleysi og skorti á upplýsingagjöf um það sem farið hefur úrskeiðis. Mun sjaldgæfara sé að sjá einbeittan brotavilja hvað varðar svik og lögbrot.

Hann segir að bæði í tilviki Enron og Volkswagen falli málin í síðarnefnda flokkinn. Nefnir hann svo nokkrar ástæður fyrir því af hverju þetta nýja hneyksli gæti verið stærra en Enron hneykslið.

Í fyrsta lagi hafi þúsundir tapað ævisparnaðinum þegar Enron fór á hausinn, en að Volkswagen hafi stefnt heilsu milljóna í hættu. Hátt hlutfall köfnunarefnisoxíða og örkorna, sem hugbúnaður VW bíla faldi fyrir eftirlitsaðilum, geti verið stórhættulegur, einkum börnum og þeim sem þjást af öndunarfærasjúkdómum.

Sektir og dómsmál

Í öðru lagi hafi VW verið í fararbroddi evrópskra bílaframleiðenda í baráttu þeirra fyrir því að díselbifreiðar fengju sérmeðferð hjá þarlendum stjórnvöldum. Díselbílar eiga nú um helming bílamarkaðarins í Evrópu, ekki síst vegna þess að farið er mildari höndum um þá af skattayfirvöldum.

Segir Bach að það hafi verið nógu slæmt að yfirmenn Enron hvöttu starfsmenn sína til að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu, en aðgerðir VW séu sambærilegar við það ef bandarísk stjórnvöld hefðu breytt skattareglum til að reyna að fá helming allra Bandaríkjamanna til að kaupa hlut í fyrirtækinu.

Þá segir hann að fjárhagslegt tjón VW muni verða miklum mun meira en hjá Enron. Nú þegar sé ljóst að sektargreiðslur til bandarísku umhverfisverndarstofnunarinnar geti orðið allt að 18 milljarðar dala. Þá á eftir að taka til greina sektir í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og þau dómsmál sem nær öruggt má telja að kaupendur og bílasalar muni höfða. Virði bílanna hefur fallið mjög eftir að fréttir bárust fyrst af hneykslinu og á það jafnt við um bílasölurnar sjálfar.

„Enginn kviðdómur í Bandaríkjunum mun fara mildum höndum um erlendan bílaframleiðanda sem markaðssetti „hreina díseltækni“ sína á meðan það nýtti tæknina til að fela þá staðreynd að örkornaútblástur var allt að 40 meiri en af var látið,“ segir Bach. Þá eigi sérfræðivitni eftir að segja kviðdómendum frá áhrifum slíks útblásturs á astmasjúk börn.

Fleiri ríki hafa hafið rannsókn á Volkswagen, þar á meðal í Evrópu og S-Kóreu, og má búast við sektargreiðslum þar líka.

Skemmir fyrir öðrum þýskum fyrirtækjum

Bach útilokar ekki að hneykslið gæti gengið af Volkswagen dauðu og að jafnvel þótt svo verði ekki geti það haft gríðarleg áhrif á þýskan iðnað. Volkswagen sé krúnudjásn þýska bílaiðnaðarins, en í markaðssetningu þýskra bíla erlendis hefur mikil áhersla verið lögð á uppruna þeirra. Segir Bach að búast megi við því að slagorð eins og „Das Auto“ og „Vosprung durch Technik“ muni hverfa af skiltum um heim allan.

Að lokum segir hann að hneykslið muni eflaust skemma verulega þá ímynd sem þó hefur tekist að búa til af díselvélum sem umhverfisvænni valkostum við bensínvélar, jafnvel þótt aðrir bílaframleiðendur hafi ekki svindlað á útblástursprófum sínum. Þá muni hneykslið einnig draga úr trúverðuleika þeirra sem halda því fram að tækniframfarir geti nýst í baráttunni við loftslagsbreytingar.