Gengi bréfa í Eimskip lækkar um 4,4% í fyrstu viðskiptum dagsins. Ársreikningur félagsins fyrir síðasta ár var birtur í gærkvöldi. Þegar þetta er skrifað, klukkan 9:55 eru þó einungis tólf milljóna króna velta að baki þeirri lækkun.

Samkvæmt ársreikningnum dróst hagnaður Eimskipa saman um 1,9 milljónir evra á síðasta ári, eða um 295 milljónir króna. Hagnaður yfir árið nemur 10,8 milljónum evra en var 12,7 milljónir evra árið 2012.

Hagnaður á fjórða fjórðungi eykst um 175 þúsund evrur eða sem samsvarar 27 milljónum króna. Hagnaðurinn var 1,17 milljón evra á fjórða fjórðungi 2013. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 37,1 milljón evra á síðasta ári en var 36,2 milljónir árið á undan.

„Við teljum afkomu ársins 2013 endurspegla erfiðar aðstæður í efnahagslífinu á Íslandi. Slæm veðurskilyrði á Norður-Atlantshafi og bilanir á nokkrum af skipum félagsins á fjórða ársfjórðungi settu siglingaáætlanir okkar úr skorðum og höfðu neikvæð áhrif á afkomuna. Rekstrartekjur ársins námu 433,8 milljónum evra og jukust um 2,4% á milli ára. EBITDA ársins nam 37,1 milljón evra og dróst saman um 9,1% frá árinu 2012 að teknu tilliti til einskiptisliða á því ári. Afkoma af erlendri starfsemi gekk vel á árinu en afkoma tengd starfsemi Eimskips á Íslandi var undir væntingum okkar,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipa í tilkynningu.

Gylfi segir að Eimskip sé með tvö gámaskip í smiðum í Kína og félagið hafi samið um frekari frestun á afhendingu þeirra. Gert sé ráð fyrir að fyrra skipið verði komið í þjónustu um mitt þetta ár en óvissa ríki enn um afhendingu seinna skipsins sem útlit sé fyrir að verði ekki fyrr en seint á árinu. Samhliða þessum seinkunum hafi Eimskip samið um lækkun á kaupverði skipanna um alls 10,8 milljónir dollara.