Fjórir fjármálasérfræðingar frá Júpíter, Gamma, Arion Banka og Íslandsbanka eru allir sammála um að evrukrísan framlengi gjaldeyrishöftin. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

„Umrótið í Evrópu seinkar þeirri áætlun [afnámi hafta]. Að mínu viti gæti evrukrísan þannig haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir áform okkar um að afnema höft,“ segir Styrmir Bragason sjóðsstjóri hjá Júpíter meðal annars.

Davíð Stefánsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion Banka tekur í svipaðan streng: „Ef evrukrísan heldur áfram verður áhættufælni á fjármálamörkuðum meiri og það gerir það vissulega erfiðara að afnema höftin. Ég tel að sú þróun hefði frekar áhrif til veikingar krónunnar heldur en hitt sem mun aftur ýta verðbólgunni upp á við. Þetta má rekja til þess að viðskiptaafgangurinn minnkar og um leið gjaldeyrisinnstreymið til landsins. Eins eru minni líkur á að íslenskir aðilar nái að endurfjármagna erlend lán í þeim mæli sem þeir þurfa.“