Lánveitendur beggja vegna Atlantshafsins búa sig nú undir flóðbylgju greiðsluvandræða kreditkortahafa en kreditkortaskuldir almennings hafa vaxið gífurlega undanfarin ár.

Þetta kemur fram bæði á vef Bloomberg fréttaveitunnar og á vef breska blaðsins Financial Times (FT).

Það er helst almenningur í Bandaríkjunum sem hefur verið að safna kreditkortaskuldum undanfarin ár. Rétt er að geta þess að Bandaríkjamenn nota kreditkort með svipuðum hætti og Íslendingar nota yfirdráttarheimild. Þannig er algengt að fólk greiði fyrir hluti með greiðslukorti (jafnvel hluti sem það hefur ekki efni á þegar kaupin fara fram) og semja síðan við greiðslukortafyrirtækin eða bankann sinn um afborgarnir af skuld sinni.

Slíkar afborgarnir bera iðulega háa vexti (sbr. yfirdráttarlán) og Bloomberg fréttaveitan greindi frá því um helgina að fari svo að almenningur lendi í vandræðum með þær afborgarnir kunni það að verða stór skellur fyrir fjármálakerfið vestanhafs.

Gætu þurft að afskrifa gífurlegt fjármagn vegna vanskila

Talið er að kreditkorta- og neysluskuldir almennings í Bandaríkjunum nemi um 1.900 milljörðum dala en fram kemur í umfjöllun FT að búast megi við því að afskrifa þurfi um 14% þeirrar upphæðar.

Á sama tíma nema kreditkorta- og neysluskuldir almennings í Evrópu um 2.500 milljörðum dala og talið er að afskrifa þurfi um 7% þeirrar upphæðar, að mestum hluta í Bretlandi þar sem kreditkortaskuldir eru sem mestar í Evrópu. Í Bretlandi nema greiðslukortalán um 9,4% allra lána og hafa aukist hratt síðustu ár en í Bandaríkjunum nema þau rétt rúmlega 10%.

Í Bandaríkjunum hafa vanskil af kreditkortaskuldum aukist nokkuð síðustu misseri. Ástæðuna fyrir því má, að sögn Bloomberg, meðal annars rekja til vaxandi atvinnuleysis og greiðsluerfiðleika heimila.

Fjármálakerfið má ekki við öðrum skelli

Þá greinir FT frá því að stórir bankar vestanhafs, svo sem Citigroup, Bank of America, JP Morgan og Wells Fargo ásamt kreditkortafyrirtækjum á borð við American Express (sem ólíkt öðrum kreditkortafélögum er með viðskiptabankaleyfi og gefur út kort án þess að gera það í gegnum banka) hafi þegar fundið fyrir erfiðleikum vegna aukinna vanskila og búi sig undir stóran skell vegna þessa.

Viðmælendur Bloomberg fréttaveitunnar eru á sama máli og segja fjármálakerfið varla mega við slíkum skelli, nú þegar sé búið að afskrifa gífurlegar upphæðir vegna húsnæðislána og annarra veða.

Einn viðmælandinn, sem sagður er starfa sem greiningaraðili á Wall Street, líkir fjármálakerfinu við sjúkling á batavegi.

„Það að þurfa að afskrifa kreditkortaskuldir í miklu magni væri eins og kýla í magann á manni sem er en menn sauma eftir aðgerð. Það er augljóst að kerfið þolir það ekki. Fjármálastofnanir þurfa að finna leiðir til að semja við skuldara sína um afborganir sem eru viðráðanlegar og þannig munu þær innheimta fé sitt þó það taki lengri tíma,“ segir viðmælandi Bloomberg.

Þá á enn eftir að líta til þess hvaða alþjóðlegu áhrif það gæti haft ef bandarískar, og hugsanlega breskar, fjármálastofnanir lenda í miklum vandræðum vegna afskrifa á fyrrgreindum upphæðum. Margir fréttaskýrendur eru sammála um að núverandi vandræði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum megi fyrst og fremst rekja til Bandaríkjanna. Hvað sem þeirri skoðun líður má þykja nokkuð augljóst að fari það svo að bandarískar fjármálastofnanir lendi í miklum vandræðum á næstu misserum kann það að draga þá kreppu sem nú ríkir á mörkuðum eitthvað á langinn.