Samkvæmt efnahags- yfirliti lífeyrissjóða, sem Seðlabanki Íslands birtir mánaðarlega, þá námu eignir lífeyrissjóðanna 1.713 milljörðum króna í lok nóvember s.l., en voru 1.636 milljörðum króna í lok október að því er kemur fram á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.

Þannig jukust eignir lífeyrissjóðanna um 77 milljarða króna í nóvembermánuði einum. Megin skýringin liggur í hækkun á erlendum verðbréfum sjóðanna í nóvembermánuði og er það í takt við veikingu krónunar á sama tíma. Alls námu erlendar eignir lífeyrissjóðanna 537 milljörðum króna, sem er um 31% af heildareignunum.

Þrátt fyrir verulega rýrnun á eignum lífeyrissjóðanna eftir bankahrunið í byrjun október s.l. nema nú heildareignir sjóðanna hærri fjárhæðum en eignirnar voru í árslok 2007 eða sem nemur 16 milljörðum króna. Þá vekur athygli að lífeyrissjóðirnir eiga inni í reiðufé í bönkunum alls um 158 milljarða króna, sem er um 9,2% af heildareignunum segir í fréttinni.